Monday, January 5, 2015

Áhyggjur móður

Forgangsörðunin breytist gífurlega þegar lítill angi lítur dagsins ljós. Maður fyllist stolti yfir hlutum sem maður hugsaði ekki tvisvar um áður, litlu hlutirnir fara að skipta svo fáránlega miklu máli. Ég áttaði mig fyrst á því þegar hann ropaði eftir gjafir, vá þetta var fallegasti ropi sem ég hafði heyrt og ég fagnaði í hvert skipti (kannski ekki með blöðrum og söng) en brosti útaf eyrum.

Dagarnir fara líka að snúast næstum óþægilega mikið um það sem fer inn og ekki hvað síst það sem fer út, hvernig það er á litinn, hvernig áferðin er, hversu mikið magn og hversu oft. Í dag varð ég t.d. vandræðalega mikið glöð þegar ég sá að karrýliturinn var kominn á sinn stað. Við Ómar erum sem sagt að stíga upp úr veikindum og kúkamaskínan eða Ómar "poop machine" eins og ég kalla hann (enda er oft sungið Girls Aloud lagið Love Machine með breyttum texta "I'm just a poop machine") er loks sjálfum sér líkur og farinn að kúka eins og það verði engir fleiri dagar til að kúka (ég furða mig á því hvar hann geymi þetta allt).

Haha, kannski er þetta óþægileg lesning, kannski fer kúkur, rop og prump fyrir brjóstið á fólki, eins og ég skrifaði fer lífið að snúast næstum óþægilega mikið um þetta en svo mikið verður það að það hættir að vera eitthvað feimnismál.

Því eldri sem hann verður verða áhyggjurnar síðan meiri og meiri um hvort maður sé ekki að gera rétt, hvort maður láti hann ekki liggja nógu mikið á maganum (því hann hatar sko að liggja á maganum) og þar sem ég hef glímt við ofhugsanir síðan á barnsaldri (ég hélt það væru geimverur undir rúminu minu og stjörnuhrap myndi enda jörðina eitt kvöldið - greyið mamma) þróast hugsanirnar út í að hann nái sko ekki að þjálfa bakvöðvana nógu vel og hvort hann muni þá nokkuð geta velt sér, setið, labbað og verði kannski hokinn, eins og Quasimoto! Okei, ég geri mér grein fyrir því að þetta er svolítið ýkt, en svona virkar þessi haus. Þegar hann var 5 vikna var ég líka rosalega áhyggjufull um að ég væri að "dekra" hann of mikið. Það koma tímabil þar sem hann og börn almennt vilja vera mikið og helst bara í fanginu, og veit ég það núna en ég var alveg viss um að ég væri að gera hann háðann því að vera í fangi og hann myndi bara aldrei geta sofið ekki í fangi og bara ekki verið ekki í fangi (eins og hann myndi bara vera 15 ára enn í fanginu)

Ómar er ekki nema tæplega 4 mánaða núna og áhyggjurnar minnka ekki með tímanum sé ég. Ég hugsa stundum, hvað hef ég komið mér út í, get ég bara lifað endalaust með áhyggjur og samviskubit um að vera ekki að gera þetta eða hitt, að eiga ekki nýjasta Emmaljunga vagninn eða glænýjan Trip Trap stól? En svo brosir hann, hlær eða veltir sér upp á hlið og ég gleymi því að hann þarf kannski ekkert nýjustu MOLO fatalínuna eða Timberland skó til þess að verða heilbrigður strákur sem getur velt sér, setið, labbað og meira að segja vera beinn í baki og þetta er svo allt þess virði. Maður, eða ég allavega, verður svolitið klikkaður og vill auðvitað barninu sínu allt það besta, en ætli það besta sem maður geti gert sé ekki að passa einmitt að hann ropi, sé að borða og skila sínu og knúsa hann svo og kyssa í döðlur.


Hann allavega var duglegur í morgun, þó hann eigi bara stuðkant úr IKEA!

Friday, January 2, 2015

2015!

Vá hvað er langt síðan síðast! Þá var ég að hefja 100 happy days áskorunina (sem ég btw kláraði! skoðist á instagram). Það blogg er síðan 15. febrúar 2014, má segja að ég hafi ekki alveg staðið mig í stykkinu. Ég hætti að blogga sennilega fljótlega eftir að ég komst að því að ég væri ekki lengur kona einsömul! Síðan þá hef ég gengið fulla meðgöngu og fært draumaprinsinn minn, Ómar Elí, í heiminn!

Erum við að grínast með hvað tíminn er fljótur að líða? Nú er komið nýtt ár, nýir tímar, nýjar áskoranir og fullt nýtt. Mig langar samt að renna hratt yfir gamalt, áður en við tökumst á við það nýja, taka 2014 á hraðsuðukatli.

Í janúar, byrjaði ég í nýrri vinnu, tók yfir 10-12 ára starfi Félagsmiðstöðvar Zelsíuz. Ég elska þennan aldur, krakkarnir ekki lengur "börn" en ekki alveg komin með unglingastæla, svona mitt á milli, vita ekki alveg hvernig þau eiga að haga sér, yndislegt! Eitthvað helltist líka endalaust þreyta yfir mig þennan mánuð, ekki vissi ég afhverju en það kom fljótt í ljós, þreytan entist í febrúar og mars. Hver stund milli vinnu var nýtt til að leggja sig (those were the days).

Í apríl fór ég í vinkonuferð til Manchester, kíktum á góðvin okkar Timberlake og annað lögheimili okkar Primark, í byrjun maí fór ég til Búdapest í viku vinnuferð sem var dásamlegt! (Má segja að Ómar sé víðförull)

Um miðjan maí kom í ljós að baunin væri með typpi, hann sýndi það vel svo það fór ekki milli mála. Eitthvað vildi hann stríða foreldrum sínum svo hann þurfti sérstaka eftirfylgni út meðgönguna, ég vildi meina að hann væri bara að færa fólkið í kringum sig enn nær saman og kenna okkur foreldrum sínum vel nýtanlega þolinmæði. Jákvæði punkturinn í því var að við fengum að sjá hann extra oft áður en hann kom í heiminn og eigum fullt af myndum af honum í mallanum.

Um sumarið hélt bumban áfram að stækka, hann tók að sparka mikið, ég var að vinna og reyna finna bestu leiðina til að þola biðina, við Fannar fórum því nokkrum sinnum í bíó, göngutúra, horfðum á þætti og myndir og skelltum okkur meira að segja til Eyja á Þjóðhátíð. 22. september var síðan settur dagur en Ómar var óþolinmóður eins og foreldrar hans og mætti á svæðið með látum þann 14. september heilbrigður og dásamlegur!

Október, nóvember og desember voru svo sjúklega fljótir að líða að það er fáránlegt. Drengurinn hefur farið frá "máttlausri" rækju til ungabarns sem brosir, hlær og slefar í tonnavís.

Núna í janúar 2015 er ég aftur síþreytt, reyndar af öðrum ástæðum. Framundan sér Völvan flutninga, sundkennslu, meira slef, hollustu líferni (haha), göngutúra (þegar hættir að snjóa - sem sagt í júní) og fullt af brosum. Eitt af mínum "áheitum" er að halda áfram að blogga (lengur en febrúar), hvort sem einhver lesi eður ei. Ég hef ákveðið að hafa það fjölbreytt og taka ýmislegt fyrir, sýna umbreytingar á íbúð, þróun barns að krakka, hugleiðingar þeirrar sem fylgist of lítið með fréttum og fleira sem mér dettur í hug.

Ég ætla að enda þessa færslu á tískuþætti dagsins.
Þetta útlit kalla ég "New year's New mom"


Bolur : Netverlsun BOOHOO.com (ekki mikill tími til mátunnar)
Buxur : Walmart eða Target
Sokkar : Gjöf frá mömmu
Skór : Sports Direct
Nærföt : Ekki smart


Make up by me, frá því í gær
Enginn primer
Baugafelari/Cover stick - Maybeline
Púður - Body Shop
Augnskuggi í koddanum
Maskari - Eitthvað með glimmeri utaná sem mamma var ekki að fýla svo ég stal'onum
Hár - í teygju


Mig langar til að óska öllum gleðilegs nýs árs, ég vona að þið haldið áheitin ef þið settuð ykkur einhver og óska ykkur fullt af brosum!