Monday, January 5, 2015

Áhyggjur móður

Forgangsörðunin breytist gífurlega þegar lítill angi lítur dagsins ljós. Maður fyllist stolti yfir hlutum sem maður hugsaði ekki tvisvar um áður, litlu hlutirnir fara að skipta svo fáránlega miklu máli. Ég áttaði mig fyrst á því þegar hann ropaði eftir gjafir, vá þetta var fallegasti ropi sem ég hafði heyrt og ég fagnaði í hvert skipti (kannski ekki með blöðrum og söng) en brosti útaf eyrum.

Dagarnir fara líka að snúast næstum óþægilega mikið um það sem fer inn og ekki hvað síst það sem fer út, hvernig það er á litinn, hvernig áferðin er, hversu mikið magn og hversu oft. Í dag varð ég t.d. vandræðalega mikið glöð þegar ég sá að karrýliturinn var kominn á sinn stað. Við Ómar erum sem sagt að stíga upp úr veikindum og kúkamaskínan eða Ómar "poop machine" eins og ég kalla hann (enda er oft sungið Girls Aloud lagið Love Machine með breyttum texta "I'm just a poop machine") er loks sjálfum sér líkur og farinn að kúka eins og það verði engir fleiri dagar til að kúka (ég furða mig á því hvar hann geymi þetta allt).

Haha, kannski er þetta óþægileg lesning, kannski fer kúkur, rop og prump fyrir brjóstið á fólki, eins og ég skrifaði fer lífið að snúast næstum óþægilega mikið um þetta en svo mikið verður það að það hættir að vera eitthvað feimnismál.

Því eldri sem hann verður verða áhyggjurnar síðan meiri og meiri um hvort maður sé ekki að gera rétt, hvort maður láti hann ekki liggja nógu mikið á maganum (því hann hatar sko að liggja á maganum) og þar sem ég hef glímt við ofhugsanir síðan á barnsaldri (ég hélt það væru geimverur undir rúminu minu og stjörnuhrap myndi enda jörðina eitt kvöldið - greyið mamma) þróast hugsanirnar út í að hann nái sko ekki að þjálfa bakvöðvana nógu vel og hvort hann muni þá nokkuð geta velt sér, setið, labbað og verði kannski hokinn, eins og Quasimoto! Okei, ég geri mér grein fyrir því að þetta er svolítið ýkt, en svona virkar þessi haus. Þegar hann var 5 vikna var ég líka rosalega áhyggjufull um að ég væri að "dekra" hann of mikið. Það koma tímabil þar sem hann og börn almennt vilja vera mikið og helst bara í fanginu, og veit ég það núna en ég var alveg viss um að ég væri að gera hann háðann því að vera í fangi og hann myndi bara aldrei geta sofið ekki í fangi og bara ekki verið ekki í fangi (eins og hann myndi bara vera 15 ára enn í fanginu)

Ómar er ekki nema tæplega 4 mánaða núna og áhyggjurnar minnka ekki með tímanum sé ég. Ég hugsa stundum, hvað hef ég komið mér út í, get ég bara lifað endalaust með áhyggjur og samviskubit um að vera ekki að gera þetta eða hitt, að eiga ekki nýjasta Emmaljunga vagninn eða glænýjan Trip Trap stól? En svo brosir hann, hlær eða veltir sér upp á hlið og ég gleymi því að hann þarf kannski ekkert nýjustu MOLO fatalínuna eða Timberland skó til þess að verða heilbrigður strákur sem getur velt sér, setið, labbað og meira að segja vera beinn í baki og þetta er svo allt þess virði. Maður, eða ég allavega, verður svolitið klikkaður og vill auðvitað barninu sínu allt það besta, en ætli það besta sem maður geti gert sé ekki að passa einmitt að hann ropi, sé að borða og skila sínu og knúsa hann svo og kyssa í döðlur.


Hann allavega var duglegur í morgun, þó hann eigi bara stuðkant úr IKEA!

No comments:

Post a Comment