Wednesday, January 15, 2014

Þakklætið - Móðir allra dyggða


Það eru miklar og háar raddir sem óma þegar eitthvað má fara betur, þegar fólk er ósátt og oft bara reitt. Það kann stundum að gleymast hvað er gott, hvað við erum sátt með og hvað gerir okkur glöð. Mig langar svoldið að tileinka þessari færslu þakklæti. "Vá, ertu kerling Karitas?!" Kunna margir að hugsa, mitt svar er einfaldlega "Já .. Ég er eiginlega bara svolítið mikil kerling"

Nei djók, að vera þakklátur er ekki bara fyrir kerlingar, bara svo enginn misskilji mig. En til að halda áfram þá var ég vakin í morgun með fallegum afmælissöng sungnum af móður, systur og bróður (allt í lagi, hann var kannski ekkert guðdómlegur, en afmælissöngurinn er líka eiginlega alltaf illa sunginn) Þau komu inn til mín með pakka og bros á vör. Er til betri leið til að vakna? Ég er ekki viss! Við fórum öll fram og borðuðum saman áður en allir tóku sig til fyrir skóla og vinnu. Ég elska afmælisdaga! Það eru uppáhalds dagarnir mínir og er ég m.a. þakklát fyrir að fá að eyða honum með fjölskyldu minni sem ég er svo enn meira þakklát fyrir! Þetta setti líka bara svo góðan grunn fyrir daginn. 

Ég brunaði í bæinn og átti brunch deit með æskuvinkonu minni sem ég hitti ekki nógu oft, en þegar við hittumst er eins og enginn tími hafi liðið, ég er þakklát fyrir svoleiðis vinskap! Ég er bara svo einstaklega þakklát fyrir að eiga góða að. Ég er þakklát fyrir að anda, labba og tala, ég er sérstaklega þakklát fyrir mat, ég elska mat! Amerískar pönnsur eru í sérstöku uppáhaldi, drekktum í sýrópi, enda eru þær must have á afmælisdaginn minn, síðan ég man eftir mér, 23. afmælisdagurinn var engin undantekning, á leiðinni í bæinn spiluðu líka gömul lög í útvarpinu, sem ég elskaði síðan ég var í 7. bekk, á veitingastaðnum var svo annar æskuvinur að þjóna til borðs, þessi dagur hefði ekki getað byrjað betur, ég var komin aftur til ársins 2003!

Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þessari færslu annað en bara hvað ég er bara full þakklætis þessa dagana, ég tala nú ekki um hvað ég er þakklát fyrir Facebook á afmælisdögum, ég sver það gerir dag manns! 

Dagurinn fór að mestu leiti í vinnu en ég var bara svo glöð, brosandi og þú mátt giska ... endurnærð eftir fyrri hluta dagsins!! (hah! þú hélst ég myndi segja þakklát .. heldurðu að ég kunni engin önnur orð?) Ég tala nú ekki um hvað ég elska vinnurnar mínar!

Ég læt mynd fylgja með hálfkláraðan diskinn (pönnsurnar eru mögulega búnar) í nýju afmælisfötunum mínum!

Munum að vera þakklát, lítum á það jákvæða í kringum okkur og helst látum okkar fólk vita hve þakklát við erum fyrir þau!

Þakklætis kveðjur


(Sá sem finnur hvað þakklæti kemur kemur oft fyrir í færslunni á inni fullan poka af góðu karma frá mér! Kannski poka af Góu kúlum líka!) 


Tuesday, January 7, 2014

Þriðjudagar til þreytu

Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að þriðjudagar eru ekki mínir uppáhalds dagar. Það hjálpar ekki að þrettándinn var í gær og því í raun jólunum algjörlega lokið. Ég tel mig þó, næstum því án þess að hika, geta sagt að það séu einstaklega fáir sem halda sérstaklega upp á þennan dag. Það er ekki að ástæðulausu sem það er talað um the tuesday blues, reyndar komst ég að því þegar ég fletti því upp rétt í þessu að það kemur upprunalega frá alsælu notendum sem náðu botninum á þriðjudegi eftir helgina, svo það á kannski ekki alveg við hér.

En hér ætla ég að vera jákvæð, jájájá, þriðjudagar þýða einfaldlega að það er ekki lengur mánudagur og styttist þar að leiðandi í sumarfrí! Eða allavega í helgina...

Númer 2 á listanum fyrir neðan er talað um :

2. Something you feel strongly about
Eftir mikla umhugsun, því ég hef alveg nokkuð sterkar skoðanir á mörgum hlutum, passa mig samt að vera diplo í samræðum, þá er eitt málefni sem ég get ekki setið á mér þegar það kemur upp. Michael Jackson. Ég hef gífurlega sterkar skoðanir á því að hann hafi verið einn sá mest misskildi einstaklingur okkar tíma! Ég tel hann hafa verið virkilega brenglaðan jú, eftir ekki besta uppeldið og enga æsku, ég tel hann hafa festst (skrítið orð) í því að upplifa barndóm, að hann hafi í raun kannski aldrei náð að þroskast og margir hafi misskilið það. Ég tel hann ekki hafa vísvitandi og tekið meðvitaða ákvörðun um að skaða neinn eða viljað neinum nokkurntíman illt! Greyið maðurinn, ég hefði gefið margt fyrir að sjá hann á sviði en hann hvílir á betri stað í dag! Einnig hef ég sterka skoðun á því að koma á réttum tíma, ég hata sjálf að vera sein, það er eitt það óþæginlegasta og að þurfa að bíða lengi, æi það er ekkert gaman! Að lokum hef ég gífurlega sterka skoðun á þeirri vitleysu að finnast súkkulaði ekki gott? Hvað er það!?

Svona til að listin klárist einhverntíman ætla ég að taka 3 líka, en það er alveg no brainer og svoldið gefið þar sem ég les yfirleitt ekki mikið.

3. A book you love
Ég elska Harry Potter, já, þar hafið þið það. Ég er sérstakur aðdáandi og syrgi það enn í dag að fá ekki nýja bók til að lesa í jólafríinu um ævintýri Harry, Ron og Hermione! Ég vonaðist oft eftir því að ég fengi bréf sent heim um inngöngu í Hogwarts en mér er víst ætlað þetta Muggalíf.


Stelst til að setja eina síðustu jólamyndina inn í jólapeysunni góðu, ég elska jólin! 


Sunday, January 5, 2014

Nýtt ár, nýir tímar, hví ekki nýtt blogg?

Í langan, langan tíma er mig búið að langa til þess að byrja að blogga aftur. Afhverju? kann ég og eflaust fólk að spyrja sig, "er blogg ekki svolítið svona 2007?" spurði bróðir minn mig einmitt. Ég hef því miður ekkert gott og hnittið svar við þessari spurningu annað en einfaldlega, "af því mig langar það". 

Ég elska að skoða skemmtileg blogg hjá öðrum, hvað þeir eru að gera, elda og tala nú ekki um ef það er eitthvað skapandi. Ég kaus þó að nenna ekki að vera pirrandi píjan sem er sí-postandi öllu á Facebook þar til hún fær engin like lengur vegna þess að allir hafa hide-að hana, meira að segja afi sem kann ekki að logga sig útaf. Ég hugsaði mig því lengi um hvað ég gæti gert og komst að þeirri niðurstöðu að blogg væri málið, þá gæti ég blaðrar eins og ég vildi og fólk kysi hvort það skoðaði það eða ekki, algjörlega þeirra val! 

Ég hafði þó dregið þetta gífurlega á langinn, nokkur ár, en hugsaði með mér þegar hugmyndin hoppaði aftur upp í stóra hausinn minn í lok 2013 "Hey! Karitas? Afhverju læturðu það ekki vera eitt af þessum umtöluðu nýársheitum og notar það sem afsökun til að byrja þetta?" "Vá, góð hugmynd Karitas!" hugsaði ég og ákvað þar að leiðandi að láta þetta verða eitt af þessum heitum og meira að segja eitthvað sem ég stend við! En ekki eins og að borða hollt 2014 (það var líka nýársheit, ég gúffaði samt í mig fullt af kökum og súkkulaði í dag - way to go Karitas!). Það skal hafa það á hreinu að ég ætla samt að reyna það sko, árið er rétt að byrja!

Allavega, ég vissi ekki hvað ég ætti samt almennilega að skrifa svona fyrst um sinn og fann þennan skemmtilega lista á netinu, netinu sem ég elska svo mikið. Reyndar er þetta hugmynd að dagbókaruppfærslum en hvað er blogg annað en nokkurskonar dagbók á netinu? Ég ætla amk að styðjast við þennan lista, taka einn eða fleiri hluti svona meðan ég er að koma mér í gang, svo vonandi seinna get ég farið að koma með eitthvað sniðugt, eitthvað sem ég elda eða skapa rosa fallegt!

Jú, ég heiti auðvitað Karitas Harpa og er 22 ára þar til í næstu viku, ætla að halda fast í þessa nokkru daga áður en ég finn hrukkurnar fara að myndast.



how to start a journal. I've always wanted to keep one for years but they usually only consist of one page then I forget about it. love the ideas this offers, maybe I'll even try to keep one this time

Bara til að byrja listann samt og koma þessu í gang ætla ég að taka fyrsta hlutann : 

1. Five ways to win your heart
Það er í raun ekki erfitt fyrir neinn, vini né vandamenni, að komast inn að hjarta mínu með réttu tólunum, jú reyndar þarftu að brjóta í gegnum smá ísmúr og hita upp steinhjartað en eins og ég segi, með bara eldspýtnastokk er það ekkert of erfitt.

1. Þú mátt ekki taka lífinu, þér né öðrum of hátíðlega. Þú verður að geta hlegið, hlegið vel og lengi og helst af óförum þínum, mínum og bara öllu.
2. Eitt lítið hrós, þarf ekki að vera væmið, má vera "hey, töff sokkar" eða "svefnlykt þín ekki sú alversta sem ég hef fundið". Það bræðir alltaf smá.
3. Dansaðu í rigningunni, eða Kringlunni, nú eða syngdu í Bónus ef þig langar, æi vertu bara þú sjálf/ur það er svo miklu miklu skemmtilegra fyrir alla! (Smá klént en kammoooon)
4. Þú getur auðveldlega brætt hjarta mitt með Góu kúlum og Appollo lakkrís, hvað er það gott!?
5. Gefðu mér eitthvað sem þú hefur búið til, hvort sem það er ljót teikning, perlaður api, brennd kaka eða misstórir prjónaðir sokkar, ef það er frá þér og gert með réttum huga þá þarftu ekki einu sinni eldspýtur til að bræða!

Þetta kann að vera gott í bili, kannski helst til væmið fyrir minn smekk en þetta var hlutur 1 á listanum og maður má ekki svíkja listann!